top of page

 

Ljósalækjavirkjun (Heimavirkjun)
 
Ljósalækjavirkjun er heimavirkjun á sveitabænum Fit undir Vestur-Eyjafjöllum. Framkvæmdir á virkjuninni byrjuðu árið 2000 og hún var tekin í notkun þann 13. október árið 2002.
 
Virkjunin stendur uppi í fjallshlíð Eyjafjalla og liggur þar við bergið. Hún er u.þ.b. 120 metra yfir sjávarmáli þar sem vatnið safnast saman úr þrem lækjum, Ljósalækjum. Vatnið safnast fyrir á einum stað, fellur síðan niður fallpípu 106 metra og rennur inn í stöðina þar sem rafmagnið verður til. Virkjunin sér tveimur bæjum fyiri rafmagni, Fit1 og Fit2 en þar búa samtals 10 manns. Hún sér einnig nokkrum útihúsum fyrir rafmagni svo sem fjósi, fjárhúsi og fleiru. Þegar virkjunin afkastar mest framleiðir hún 33KW.  
 
Á Fit var fyrst virkjað árið 1930 en þá voru einungis olíulampar sem lýstu upp bæina. Á þeim tíma var vatnið tekið úr einum læk og þá var virkjunin aðeins að framleiða 2,5 KW. 
 
 

 

Blönduvirkjun
 

Blöndustöð var tekin í notkun árið 1991. Hún stendur á brún norðanverðs hálendisins við enda Kjalvegar. Í norðurátt er sýn niður í Blöndudal þar sem áin Blanda rennur til sjávar við Blönduós.

Blöndustöð er neðanjarðar, rúmlega 230 m. undir yfirborði jarðar.

Blönduvirkjun framleiðir 150MW.

Það vinna 20 manns í Blöndu á veturna en á sumrin bætast svo við um 30 sumarstarfsmenn.

Almennt um vatnsaflsvirkjanir
 

Í vatnsaflsvirkjunum er hreyfiorka straumvatna beisluð og henni breytt í raforku. Vatnsaflsvirkjanir eru nánast jafn misjafnar og þær eru margar en þó eru í þeim nokkrir grunnþættir. Þar á meðal er stífla, t.d. í árfarvegi, sem hækkar vatnsborðið og myndar lón ofan við stífluna. Við lónið eru framhjárennslisvirki til að hleypa vatni úr þegar rennsli inn í það er of mikið eins og t.d. í flóðum. Þetta geta verið svokölluð yfirföll, botnrásir eða lokuvirki þar sem hleypa má vatni fram hjá virkjuninni. Inntaksmannvirki eru í stíflunni, eða annars staðar við lónið og er hlutverk þeirra að beina vatninu að aðrennslisvirkjum. Þau geta verið með ýmsu móti s.s. skurðir, pípur eða göng. Aðrennslisvirkin flytja svo vatnið að þrýstivatnspípu sem liggur að snigli vatnsvélarinnar í stöðvarhúsinu. Vatnsvélar geta verið fleiri en ein og hefur hver um sig einn hverfil og vatnshjól sem vatnsstraumurinn knýr áfram. Hverfillinn er tengdur við rafal sem breytir fallorku vatnsins í raforku með því að láta vatnið snúa hverfilhjólinu.

 

Við það snýst segulmagnað hjól í rafalnum. Utan með því eru koparvafningar og við hreyfingu segulsins fer rafstraumur að renna um vafningana. Rafstraumurinn er síðan leiddur um háspennulínur út í raforkukerfið.

Frá vatnsvélinni fer vatnið í sográs, þaðan úr stöðvarhúsinu út í frárennslisskurð eða frárennslisgöng og að lokum út í farveg árinnar neðan stöðvarhússins.

 

Aðal orkulind Íslendinga er vatnsorkan. Það er óhætt að segja að hún sé alltaf til staðar vegna þess að þegar lítið vatn er í ánum á veturna er notast við það vatn sem geymt er í uppistöðulónunum til að framleiða rafmagn.

 

bottom of page